Ýmis konar hætta steðjar að menningararfi, en þá sérstaklega á svæðum þar sem náttúruhamfarir eru tíðar. Mörg dæmi eru um eyðileggingu menningarverðmæta í kjölfar náttúruhamfara og má í því ljósi nefna eyðileggingu menningarminja í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgja í Japan 2011, eyðileggingu sögulegra dómkirkna og annars menningararfs í kjölfar jarðskjálfta á Haítí og í Nýja Sjálandi árið 2010, sem og eyðileggingu menningarsvæða í kjölfar flóða í Pakistan 2010 og í Taílandi 2011. Meðal annarra dæma eru eyðilegging menningarminja í kjölfar fordæmalausra rigninga og flóða í Indlandi 2010 og í kjölfar storms í stórum hluta Vestur Evrópu það sama ár (Jigyasu, 2019, 87-90).
Ljóst er að tíðni og styrkur náttúruhamfara hefur og mun halda áfram að aukast í kjölfar loftslagsbreytinga (Jigyasu, 2019, 90). Loftslagsbreytingar eru tiltölulega ný ógn sem steðjar að menningararfi, en þær eru þá jafnframt ein helsta ógnin við menningararf í dag. Loftslagsbreytingar geta ýtt undir aðra hættu sem ógnar menningararfi, svo sem mengun, átök yfir auðlindum og fólksflutninga af ákveðnum landsvæðum. Auk þess ógna loftslagsbreytingar menningararfi sem enn er í jörðu niðri eða ekki hefur fundist, svo sem vegna þiðnunar sífrera líkt og ógnar nú fornleifum í Síberíu (García, 2019, 104-106). Aukin úrkoma getur leitt til flóða og aurskriðna, hækkun sjávar getur orðið til frekari storma og flóða úr ám og hækkun hitastigs og bráðnun jökla getur orsakað jökulhlaup (Jigyasu, 2019, 91). Loftslagsbreytingar hafa ekki sömu áhrif á öll svæði heldur getur birtingarmynd þeirra verið með ólíkum hætti. Sumir staðir eru til að mynda í frekari hættu vegna hækkunar sjávar en aðrir staðir vegna annarra afleiðinga þeirra (Jigyasu, 2019, 89). Menningarminjar á þurrum svæðum eru því í frekari hættu að verða skógareldum að bráð og minjar undir fjöllum í meiri hættu sökum aurskriðna (Jigyasu, 2019, 93). Óháð tegund hennar felur eyðilegging menningarverðmæta í sér óafturkræfan missi af arfi fortíðar (García, 2019, 101).
García, Bárbara Mínguez. 2019. Resilient cultural heritage for a future of climate change. Journal of International Affairs, 73, (1), 101-120.
Jigyasu, Rohit. 2019. Managing cultural heritage in the face of climate change. Journal of International Affairs, 73, (1), 87-100.