Loftslagsbreytingar orsakaþáttur hamfaraflóðs á Seyðisfirði

Ein sú stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir um þessar mundir er að kljást við margvísleg áhrif af völdum loftslagsbreytinga. En hvað eru loftslagsbreytingar?

Loftslagsbreytingar eru keðjuverkandi hnattrænar breytingar af mannavöldum, sem hafa áhrif á ýmsa náttúruþætti og lífskilyrði okkar, heilsu og vellíðan. Rannsóknir sýna að áhrifin hafa aukist jafnt og þétt frá upphafi iðnbyltingarinnar á síðari hluta nítjándu aldar. Bruni jarðefnaeldsneytis hefur aukið styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum til muna, en styrkur koltvíoxíðs í lofthjúpnum hefur aukist um 40% frá því fyrir iðnbyltingu (Halldór Björnsson o.fl., 2018, bls. 7).

Loftslagsbreytingar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu lífs á jörðinni. Breytingarnar lýsa sér ekki aðeins í hlýnandi loftslagi heldur einnig í auknum öfgum í veðurfari, svo sem breyttu regnmynstri sem getur valdið flóðum og skriðum á ákveðnum stöðum en þurrkum og uppskerubresti á öðrum, sem ógnar matvælaöryggi. (Landvernd, 2019) Áhrif loftslagsbreytinga hafa áhrif á marga veðurfarlega þætti en hér verður leitast við að fjalla um þá sem orsökuðu stærstu aurskiður Íslands.

Áhrif loftslagsbreytinga eru margvísleg en hér verður aðeins farið yfir þá þætti sem komu við sögu þegar stærsta aurskriða á Íslands á sögulegum tíma féll í desember 2020. Veðurstofan gaf út skýrslu 2018 um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, en þar er bent á ýmiskonar vá, svo sem bráðnun jökla og sífrera. Loftlagsbreytingar auka einnig hættu og alvarleika náttúruvár tengd aftakaveðri, hamfararigningum og ofanflóðum (Halldór Björnsson o.fl., 2018, bls. 221).

Þrátt fyrir hlýnandi vetur á Íslandi telur Veðurstofan ólíklegt að dragi úr tíðni snjóflóða, en á hlýjum vetrum eru þó vot snjóflóð og krapaflóð algengari en í köldum árum. Auk þess geta hlýnandi vetur haft annarskonar ofanflóðahættu í för með sér. (Ilmer, D o.fl., 2016. bls 55). Vísindamenn höfðu sérstakar áhyggjur af svæðinu undir Strandatindi vegna fjölbreyttrar atvinnustarfsemi við sunnanverðan fjörðinn, þar eru bæði bræðsla og frystihús, bæjarskrifstofur bæjarins og heimili. Vísindamennirnir bentu á að þetta væri þekkt skriðusvæði og að skriður ættu upptök á nokkrum svæðum í fjallinu. Í einu þessara svæða er talið að sífreri sé undir yfirborðinu (Kjartan Hreinn Njálsson, 2018).

Halldór Björnsson, Bjarni Diðrik Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Sigurður Ólafsson, Ólafur S. Ástþórsson, Snjólaug Ólafsdóttir, . . . Icelandic Meteorological Office. (2018). Loftslagsbreytingar Og áhrif þeirra á Íslandi : Skýrsla Vísindanefndar Um Loftslagsbreytingar 2018. Sótt af: https://www.vedur.is/media/loftslag/Skyrsla-loftslagsbreytingar-2018-Vefur.pdf

Illmer, D., Jón Kristinn Helgason, Tómas Jóhannesson, Eiríkur Gíslason & Sigurjón Hauksson (2016). Overview of landslide hazard and possible mitigation measures in the settlement southeast of Fjarðará River in Seyðisfjörður. Veðurstofa Íslands, Efla og Ingenieurbüro Illmer Daniel e.U., VÍ skýrsla 2016-006.

Kjartan Hreinn Njálsson. (2018, 17. febrúar) Boða eftirlit með sífrera í Strandartindi. Sótt af: https://www.visir.is/g/2018180219022