Þegar hafist var handa við að handtína gripi Tækniminjasafns Austurlands úr skriðunni kom í ljós að Guðlaug Vala Smáradóttir, einn hreinsunaraðila, þekkti til safnsins og safnkosts þess. Hún var sett yfir verkið, þar sem hún vissi nokkurn veginn hvar gripirnir hefðu verið staðsettir innan safnsins. Auk þess varð hún vitni að skriðunni falla á hús safnsins og hafði því tilfinningu fyrir því hvar hlutir hefðu getað lent.
Þau vinna sig í gegnum skriðuna og fylla fiskikör af minjum sem finnast. Guðlaug leggur áherslu á að koma mununum í skjól sem fyrst. Munirnir voru flokkaðir, þeir sem voru ónýtir og talið var að ekki væri hægt að bjarga voru settir sér, en engu hent. Guðlaug taldi það ekki í þeirra verkahring að meta hverju skyldi haldið og hvað væri of illa farið svo öllu var bjargað.
Viðtal Guðnýjar Óskar Guðnadóttur við Guðlaugu Völu Smáradóttur 14. júlí 2021. Í vörslu ábyrgðarmanns verkefnis.