Davíð bjargaði félaga sínum úr sjö tonna trukknum sem færst hafði langar leiðir með skriðunni. Telur hann að ef um annars konar bíl hefði verið að ræða hefði félagi hans ekki lifað af. Að því loknu hljóp hann út í Múla, hús í miðri skriðunni, til að athuga með fólk. Hann útnefndi tvo aðila til að sjá um að koma fólki þaðan á hættuminna svæði og hljóp svo að björgunarsveitarhúsinu. Þar fyrir utan var mannlaus vörubíll á hlið, enn í gangi. Félagi hans slóst í för með honum og þeir sóttu búnað úr húsinu svo hægt væri að halda stjórnstöðinni gangandi. Þeir sameinuðust hópi fólks sem hafði safnast saman við sjóinn fyrir neðan gamla ríkið, mönnuðu bát og sigldu af svæðinu. Á siglingunni höfðu þeir augun opin fyrir fólki sem gæti hafa lent í skriðunni, á landi og í sjó.
Pétur Magnússon. (2020, 21. desember). „Allt í stórhættu og Guðs hendi“. Mbl.is. Sótt af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/12/21/allt_i_storhaettu_og_guds_hendi/.