Bein snerting við safneign

Í grein sinni „Objects and wellbeing“ fjallar Elizabeth Pye (2020) um nánd og vellíðan sem getur fylgt líkamlegri snertingu við hlut úr safneign. Hún bendir á hvernig það að varðveita hlut á bak við gler geti klippt á tenginu fólks við hann og skapað fjarlægð. Með snertingu öðlast fólk tækifæri til þess að lesa í hlutinn, handverkið og söguna sem liggur að baki honum. Athöfn sem í sjálfu sér getur veitt innblástur og tengingu (Pye, 2020). Í greininni bendir Pye á að mikilvægt sé að virða verk handverksmannsins meðal safnmuna. Handbragð þeirra skuli vera metið til jafns við handverk listamannsins. Fjallað er um efniskenndir viðar og málms en þar má greina fallegan samhljóm við efniskennd verkstæða Tækniminjasafnsins.
Minningar fólks eru oft tengdar við hluti og með því að skoða þá gaumgæfilega getur myndast tenging við eigin minningar, sögu hlutarins og þann tíma sem hann var skapaður á (Pye, 2020; Dodd og Jones, 2014; Collins, 2007; Morse, 2021). Líkt og Pye lýsir hlut úr málmi: „Köld, hörð málmstöng gæti sýnt skýr ummerki hamars og skrautlegar sveigjur sem unnar voru í stykkið meðan það var enn glóandi heitt, mjúkt og meðfærilegt“ (Pye, 2020, bls. 164).
Fallegan samhljóm má greina á milli skrifa Pye (2020) og starfs Tækniminjasafnsins þar sem hún lýsir efniskenndum málms og viðar. Hún rýnir í nándina og vellíðunina sem má finna við meðhöndlun hluta og tengingu við handverkið. Í starfi sínu á Tækniminjasafninu hefur Zuhaitz skapað pláss fyrir beint samband safngesta og efniviðar, bæði á verkstæðum og í vinnusmiðjum safnsins (Zuhaitz Akizu, munnleg heimild, 23. júní 2021). Pye (2020) fjallar um persónulega tengingu við tréspænir úr æsku frá verkstæði föður síns, sem kallast á við persónulega tengingu Zuhaitz við verkkunnáttu úr uppeldi. 

Collins, G. (2007). Tangible reminders of Sept. 11th. Í S. J. Knell (Ritstj.), Museums in the material world. Routledge.

Dodd, J. og Jones, C. (2014). Mind, body, spirit. How museums impact health and wellbeing. Research Centre for Museums and Galleries. ISBN 978-1-898489-49-8

Morse, N. (2021). The museum as a space for social care. Routledge.

Pye, E. (2020). Objects and wellbeing: A personal view. Í R. F. Peters, I. L. F. den Boer, J. S. Johnson, & S. Pancaldo (Ritstj.), Heritage Conservation and Social Engagement. UCL Press. https://www.jstor.org/stable/j.ctv13xps1g.17