Kristján Torr segir frá, 21. desember

Til baka yfir fjallið til Seyðisfjarðar (ég veit hvar kajakinn er og hvar ég get fengið lánaðan hjálm) Þegar við göngum inn í áhaldahúsið tekur á móti mér björgunarsveitarmaður sem ég þekki, hann er svo indæll en hann er þreyttur, alveg rosalega þreyttur og segir mér landhelgisgæslan sé á leiðinni að hitta mig en þeir séu á fundi. Ég er viss um að þessi fundur fjallaði aðalega um hversu rosalega leiðinlegur ég er og held í vonina að þeir ætla að leysa þetta vandamál með því að sigla bara með mig og ná í þennan helvítis kött. Já! Það reynist rétt, ég á að gefa mig fram við varðskipið og þar mun ég hljóta siglingu heim! Hlutirnir gerast hratt, við göngum um borð í stóran gúmmíbát og gefum-í í átt að Strandaveg. Á hægri hönd blasa við rústir: Smiðjan, Tækniminjasafnið, ný uppgerðum húsum pakkað saman og sum bara horfin í sjóinn. Byggingakranar og stórar vinnuvélar liggja í drullunni kramdar saman og sjórinn sem skvettist á okkur er brúnn á litinn. Áður en ég veit að því leggjum við að gömlu bryggjunni heima, Húsið er heilt og það er go-time eins og í Hollywood, 5 mínútur inn og út! Hlaupum upp stigann, ég á undan systur því ég ætla finna kisu fyrstur ef hún er dauð en um leið og við opnum hurðina mjálmar á móti okkur. Kisa lifir! En við höfum ekki mikinn tíma svo sprauta greyið strax og troða inn í búr.

Það er enn þá tími svo ég ríf harða diska úr tölvunni, af hverju ekki bjarga lífsstarfinu sama hversu ómerkilegt það er… Kaffivél úr sambandi, athuga eldavél og GOGOGOGO æpir gæslan. Út í bát, bensínið í botn og fljótum til baka á 100km hraða áður en fjallið vaknar. Ég tek nokkrar myndir af vettvangi og segi þeim að ég sé að þessu því ég vilji ekki gleyma og þeir svara þetta mun aldrei gleymast. Heim upp á hótel herbergi á Seyðisfirði, kaupa kattamat, kaupa sand og panta flugfar. Meðan systir hjúkrar kisu á Seyðisfirði keyri ég að stað upp á Egilstaði til þess að ná í restina af dótinni okkar. Ferðin gengur vel þangað til að ég kem inn á Egilstaði og bíllin snar hemlar. Staðan athuguð og kemur ljós að ég hef brotið öxul. Gamli Terrano er þreyttur og búin að gera sitt. Ekki annað í boði en að leggja bílnum, húkka sér far niður á flugvöll og leigja bíl svo ég geti keyrt systur og kisu í flug á morgun. Fæ nýjan Skoda, upp á hótel, pakka og keyra til Seyðisfjarðar. Um kvöldið hitti ég góða vini og við ræðum saman um atburði vikunnar og ég ákveð að fylgja félaga mínum inn á hamfarasvæðið í morgunsárið áður en ég fer í flugið til þess að ná í aðra kisu og gefa hænum.

Kristjan Torr. (2020, 27. desember). Frásögn og myndir frá Seyðisfirði, birt til að gleyma ekki [stöðuuppfærsla]. Facebook. Sótt af: https://www.facebook.com/KristjanTorr/posts/10158811460578540.