Um nóttina: engin svefn, bara ráf og refresh á ruv.is þangað til að birtist frétt um Breiðablik. Húsið er farið. Úr rúminu! Myndavélin í poka og ég skal niðrá Lónsleiru að taka myndir. Sama sagan; allar myndir í móðu, eins og allt sem átti eftir að gerast þennan dag. Klukkan er fimm um morgunninn og ég fer upp á hótel og tek eftir því að Herðubreið er opin og maður smýgur þar inn með börnin sín. Þetta er fjölskylda sem var rýmd úr húsi sínu um nóttina. Samt sofa ennþá margir í húsum undir hlíðinni. Seinna um morguninn er boðið upp á konfekt í ljósi aðstæðna og ég hitti vin minn og spyr hann í smá-spjalli hvernig fari um hann á hóteli og segir hann mér að hann hafi verið rekin heim af lögreglu þar sem húsið hans, steinsar frá Búðarlæk, sé ekki á rýmingarsvæði, bara húsið við hliðina. Eftir hádegi legg ég bílnum út á Lónsleiru, hef bílinn í lausagangi til þess að eyða móðu á gluggum svo ég geti myndað, nýja myndavélin þolir ekki meira vatn og ég verð að spara eldsneytið þar sem ég treysti mér ekki til þess að taka olíu í skriðunni.
Fáránlegar hugsanir koma “kemur skriða núna?” og “ef ég sit hérna nógu lengi og stari í fjallið þá gæti ég séð aurskriðu með eigin augum”. Á endanum stíg ég út úr bílnum, klæði myndavélina í plast og mynda aðeins. Hitti Gullu, maður gengur fram hjá með hund, vinnuvélar moka til skriðunni til þess að halda skriðunni opinni fyrir umferð og svo allt í einu heyri ég högg inn að hauskúpu. Bærinn verður ljóslaus og það fyrsta sem ég hugsa er að eitthvað ónefnt sé að vakna til lífsins og það þurfi myrkur til þess að skapa eitthvað hræðilegt. Þetta var svo skrýtið, því þarna birtist allt í einu heilt hús fyrir framan mig, eða okkur því franskur Seyðfirðingur grípur í öxlina á mér og segir sjáðu, sjáðu nýja húsið! Ég svara honum: sjáðu þarna uppi; fjallið er að hrynja á bæinn, sjáðu bílana og sjáðu allt fólkið sem syndir í fjallinu. Þá kom heyrnin og drunurnar. Þú fyllist ekki almennilega skelfingu nema hafa heyrt þær. Nóg komið af áfallastöru! Upp í bíl og bara keyra burt frá þessu ógeði. Ef það er í boði þá í dag ætla ég helst ekki deyja. Gamla dísel vélinn þanin í botn niður í Herðubreið þar sem ég hitti ég vini mína, eins og ég sagði þá eru þau fallegt fólk en ég gleymi aldrei hryllingnum sem ég sá í andliti þeirra. Kunningi minn kemur hlaupandi og fullyrðir að kona hans og barn syndi í flóðinu. Hugstola hundar gelta allstaðar og allskonar fuglar fljúga í torfum fyrir ofan Herðubreið. Ég hugga mig strax við að þessum hrikalega atburði sé senn á enda, skaðinn er mikill en afmarkaður við ákveðið svæði og við getum hafist handa við að gera það sem þarf að gera en drunurnar… þær vilja ekki hætta, halda bara áfram og í hvert skipti sem þessi andstyggð púlsar kemur nýr skelfingarsvipur á fólk. Ég hleyp inn á hótel og færi systur minni fregnir af því sem er að gerast og bið hana pakka öllu sínu saman og vera tilbúin að fara. Ég geri slíkt hið sama þegar síminn dinglar; Illskiljanleg tilkynning frá Almannavörnum, mikið af stafsetningarvillum og greinilega skrifað í geðshræringu; eitthvað um að allir þurfi að fara úr bænum STRAX! Fram á gangi heyri ég nágranna minn segja mér með brostinni röddu að “við förum ekki úr bænum!” og þá mátti heyra í tón hans hugleiðingu um að engin myndi snúa aftur til Seyðisfjarðar ef við færum öll núna. Við erum stödd á hrikalegri gáru á djúpum tíma jarðar og ég er of ragur til að fara niður með skipinu.
Leggjum niður vopn og leggjum á flótta. Bílinn í gang og bensínljósið blikkar, fokk! Við leggjum að stað og keyrum upp á fjall sem er að hrynja. Gulu stikunar á veginum hafa sjaldan verið í jafn skörpum fókus. Við komumst upp hlíðina, alla leið upp á Fjarðaheiði saman í hundrað bíla lest á flótta undan einhverju óskiljanlegu sem ætlar að drepa okkur. Ætli fjörðurinn hafi lagst saman? Hvað dóu margir? Er ég sjálfselskur að hugsa um gögnin í tölvunni í húsinu heima. Er heimilið núna í sjónum? Bílinn rennur niður hlíðina hinumegin í hlutlausum alla leið inn á aurskriðulausa bensínstöð á Egilstöðum. Rauði Krossinn tekur á móti okkur; ókunnugt en mjög fallegt fólk, englar frá Egilstöðum, nær sveitum og Akureyri. Það kemur á óvart að við eigum ekki að gista í íþróttahúsinu heldur á Hótel Valaskjálf. Djös lúxus. Um nóttina störum við út í loftið og hugsum um tóman fjörð hinu megin við sturlað fjall og um morgunninn fáum við staðfestingu á að ekkert manntjón varð og engin alvarleg slys á fólki. Hvernig og af hverju er móðir allra spurninga? Þarna hefði fólk átt að hverfa í sjóinn og guðum sé lof að svo varð ekki. Okkur berst fregn af annarri aurskriðu, og þegar okkur er ljóst að það verði ekki opnað á næstunni byrjar kvíðinn því við eigum kisu sem er búin að vera ein heima í fimm daga síðan á þriðjudaginn. Gúgla hvað kettir lifa lengi án vatns og spáin er svört. Þegar við fáum SMS um að Seyðisfjörður opni ekki á næstunni skjótast grafískar hugsanir um kisuna okkar og hvernig hún þornar til dauða í mannlausum bæ á heimsenda hnattrænnar hlýnunar.
Kristjan Torr. (2020, 27. desember). Frásögn og myndir frá Seyðisfirði, birt til að gleyma ekki [stöðuuppfærsla]. Facebook. Sótt af: https://www.facebook.com/KristjanTorr/posts/10158811460578540.