Kristján Torr segir frá, 15. desember

Fyrst snjóaði og svo byrjaði að rigna og daginn sem skriðuhrinan byrjaði var ég að bíða eftir pósti frá björgunarsveitarmanni varðandi skýrslu um manntjón í óbyggðum Íslands. Nefnilaga búin vera vinna í heimildarmynd um heimsfaraldur í nokkur ár en myndin átti vera svona “hvað ef” mynd svo hún var sett oní skúffu í kófinu og ég fór frekar að vinna í mynd um hamfaraflóð á Íslandi. Meðan ég beið eftir skýrslunni hélt ég áfram að rýna í veðurkortin og þegar ég kom auga á þriggja stafa tölur í úrkomudálknum þrjá daga í röð ákvað ég hefja rýmingu. Pakka, finna “go-bag”, vekja systur og bóka hótel herbergi. Óþægilegt en normal þar sem við, eins og margir Seyðfirðingar, höfum þurft að rýma húsið oft og mörgu sinnum. Þegar ég er að setja rafstöðina í bílinn þá hringir síminn og vinur minn segir mér að aurskriða hafi fallið á Seyðisfjörð. Við setjum heimilið á neyðarstig, hröðum áætlun, sleppum öllum aukabúnaði og keyrum af stað.

Þegar komum niður á Skaftfell keyrum við fram á skriðuna sem lak yfir veginn alla leið næstum niður á sjó. Mann langaði lítið til þess að verða lokaður inni af þessu ógeðslega hlaupi svo eina í stöðunni var 4×4 og torfæra gamla Terrano yfir flóðið. Við komumst léttilega yfir og ég ákveð að leggja bílnum, stíga út og skoða vettvang. (Kannski er þetta ekki svo slæmt). Svæðið er mannlaust, myrkur úti, drulla út um allt og nýir fossar hljóða milli gömlu húsanna. Síminn dinglar; skilaboð frá björgunarsveitarmanninum í Reykjavík sem segist vera tilbúin til að senda mér skýrslu um manntjón á Íslandi. Eftir þetta varð allt frekar kósmískt. Ég átta mig á því að ungur drengur stendur við enda skriðunnar við hliðina á tómum lögreglubíl og segist vera á leiðinni heim í húsið sitt sem stendur í miðju flóðinu. Hann er settur inn í bíl þrátt fyrir mótmæli og við keyrum af stað niður í Herðubreið. Í Herðubreið finn ég fallegt fólk; vini mína sem reka þar samkomuhús og Rauða Krossinn sem er mættur og er í startholunum við uppsetningu á fjöldahjálparstöð.

Heyri í famelíunni fyrir sunnan og fer inn á hótel hinumegin við götuna. Um kvöldið gefst tími til þess að rýna í ástandið. Engin slys, bara vatnstjón. Leiðinlegt en alls ekki hættulegt segja vitir menn. Fávitum finnst þetta skrýtið þar sem a.m.k. þrjár skriður hafa fallið úr fjöllunum, ein yfir bæinn og í kortunum er rigning, rigning og aftur rigning (300-600mm á næstu dögum) eða mesta rigning sem hefur mælst á Íslandi á svo stuttum tíma, og þar að auki í Desember mánuði… En hvað vita vitleysingar? Um kvöldið rita ég færslu í dagbók þar sem ég lýsi tilfinningunni um að Guð hafi yfirgefið Seyðisfjörð. Seinna um kvöldið hlæ ég að sjálfum mér hvað ég geti verið meló-dramatískur. Þrátt fyrir sjálfs-gagnrýna sefjun yfir hallærislegum dagbókarskrifum berast drunur úr myrkrinu fram eftir nóttu og það er erfitt að sofa.

Kristjan Torr. (2020, 27. desember). Frásögn og myndir frá Seyðisfirði, birt til að gleyma ekki [stöðuuppfærsla]. Facebook. Sótt af: https://www.facebook.com/KristjanTorr/posts/10158811460578540.