Ólöf Margrét Snorradóttir, sóknarprestur á Egilsstöðum, segir Seyðfirðinga hafa sýnt einstaka samstöðu í þeim hamförunum sem dunið hafa yfir. „Fólk er enn þá að átta sig á þessu, þetta er mjög óraunverulegt fyrir mörgum. Þakklæti er samt fólki efst í huga, það varð ekkert manntjón og það skiptir öllu máli. Og þessi samhugur sem allir finna, að fólk er í þessu saman. Þau finna þennan stuðning sem þau mæta alls staðar,“ segir Ólöf. Bæjarbúar hafi reitt sig á sálrænan stuðning hver hjá öðrum, en prestar svæðisins séu líka tilbúnir til taka á móti fólki.
„Það var dýrmætt að sjá. Fólk hafði virkilega þörf fyrir að hitta nágranna sína og vini, og fá þannig fréttir og stuðning. Að fá að segja hvað það var búið að upplifa, hvað það sá og heyra frá öðrum. Það var mikil hjálp í því fyrir marga,“ segir Ólöf. „Rauði krossinn er búinn að vinna hér frábært starf, það er stórkostlegt að sjá hvernig þau settu þetta allt upp til að aðstoða fólk bara á nokkrum mínútum.“ Ólöf vill leggja áherslu á að fólk haldi áfram að hlúa hvert að öðru. „Jólin koma. Þau verða ólík því sem verið hefur, við vissum það, en kannski ekki að þau yrðu svona gjörbreytt hjá mörgum.“
Viðar Guðjónsson. (2020, 19. desember). Óvenjuleg jól, en þau koma samt. Mbl.is. Sótt af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/12/19/ovenjuleg_jol_en_thau_koma_samt/ridu-i-midjum-baenum.