Rósa Lilja fékk að sitja í vörubílnum með vinkonu sinni Guðlaugu Völu Smáradóttur á meðan hún sinnti hreinsunarstörfum. Rétt utan við Tækniminjasafnið tekur Rósa eftir reyk í hlíðinni. Þegar hún áttar sig á hvað sé að ske öskrar hún á Guðlaugu að bakka bílnum. „Fjallið er að koma! Gulla stoppaðu! Stoppaðu! Bakkaðu núna!“ Drullufoss fylgir á eftir stærðarinnar hnullungum. Guðlaug sér hvernig rauða skemman fer í heilu lagi í sjóinn sökum þrýstings. Hún bakkar bílnum á meðan Rósa fylgist með fjallinu. Guðlaug sér hvernig skriðan lendir á Tækniminjasafninu, tekur það með sér yfir götuna og fleytir því inn í Skipasmíðastöðina. Eftir stendur þak Skipasmíðastöðvarinnar, en húsið sjálft fer í sjóinn. Guðlaug stoppar bílinn þegar drunurnar stöðvast en tekur af stað á ný þegar ljóst er að hættan er ekki liðin hjá. Að lokum finna þær stað til að stoppa á og hringja í fjölskyldur sínar. Faðir Rósu segir þeim að yfirgefa bílinn og hlaupa niður á bryggju og bíða björgunar. Á bryggjunni bíða þær að einhver komi og sæki þær en sökum skriðanna var erfitt fyrir björgunaraðila að ná til þeirra. Í fylgd tveggja björgunarsveitarmanna nær faðir Rósu loks að sigla bát í átt til þeirra. Vinkonurnar bíða gegnsósa, skjálfandi og í ótta við að hljóðunum sem bergmála úr fjallinu fylgi skriðuföll. Biðin virtist endalaus í myrkrinu en að lokum sjá þær bátinn nálgast og vita að þeim er borgið.
Unnur Regína Gunnarsdóttir. (2021, 7. janúar). Háski.”FJALLIÐ ER AÐ KOMA NIÐUR”. [Hlaðvarp]. Sótt af: https://open.spotify.com/episode/3kRl1jY0OpALOpW53p9SbL?fbclid=IwAR1BMKLYO34D5yRfznsIi1A_mRRejaZRljHQlUVpcIJ4W1pXF6QAL_ygWX0.