Safneign, heilsa og vellíðan

Blíðar strokur, leikur, harkaleg snerting og þéttingsfast faðmlag eru meðal lýsinga á snertingu sem kom fram í verkefninu „Heritage in hospitals“. Í verkefninu voru möguleikar meðhöndlunar muna kannaðir í samhengi vellíðunar og heilsu hjá einstaklingum á University College London Hospital. Rannsóknin var samstarfsverkefni spítalans og University College London Museum þar sem rannsakendur áttu fundi með þátttakendum. Þátttakendur í rannsókninni handléku safnmuni af ýmsum toga á meðan á samtali þeirra stóð (Chatterjee o.fl., 2009).
Tvö þemu greindust á fundunum úr eigindlegum gögnum rannsóknarinnar: Ópersónulegt/lærdómsríkt og Persónulegt/endurminningar. Fyrra þemað lýsir því hvernig þátttakendur brugðust við mununum með því að skoða þá, spyrja út í þá og læra um þá. Seinna þemað einkennist af persónulegri tengingu við muninn, þar sem þátttakandi tengdi hlutinn jafnvel við eigin minningar sem komu upp í samtali við rannsakanda. Sumir fundir innihéldu bæði þemu, en sumir bara annað þeirra. Til að mynda gat það að ræða uppruna og efnivið hlutar leitt til þess að þátttakendur brugðust við með eigin sögum af endurminningum sem þeir tengdu við muninn sjálfan eða við uppruna hans (Chatterjee o.fl., 2009). Þessa vegferð frá hinu ópersónulega til hins persónulega í samtali um muni má einnig finna í verkefninu Body, mind and spirit, sem er samstarfsverkefni Children‘s Hospital School í Leicester og New Walk Museum & Art Gallery. Verkefnið gekk út á að veita veikum börnum á Children‘s Hospital menningarupplifun auk þess að gefa þeim tækifæri á að tjá sig um eigin sjálfsmynd út frá safnmunum. Hópur barna fór í vettvangsferð á safnið til að skoða valda muni, þar sem spurningum var velt upp út frá líkama, huga og anda. Í fyrstu voru líkamlegir eiginleikar muna ræddir á borð við efniskennd og hvernig hluturinn er viðkomu. Þaðan leiddi samtalið yfir í hugrenningatengsl barnanna út frá hlutnum og loks yfir í hvernig tilfinningar vakna hjá barninu. Hamingja, innblástur og örvun (e. excitement) mældust hærri eftir heimsóknirnar (Dodd og Jones, 2014). 
Aukning í jákvæðum tilfinningum mældist einnig hjá þátttakendum verkefnisins Encountering the unexpected, samstarfsverkefni fimm breskra safna við samfélag eldri borgara á sínu svæði með því markmiði að auka vellíðan. Þar voru safnmunir notaðir til að örva samræður og kveikja forvitni. Meðal þeirra tilfinninga sem mældust aukast eftir þátttöku í verkefninu voru hamingja, innblástur, spenningur og áhugasemi (Dodd og Jones, 2014).  Svipaðar niðurstöður komu frá rannsókn Thomson og Chatterjee (2016) þar sem fram kom að fundir með eldri borgurum þar sem safngripir voru meðhöndlaðir (e. Museum object handling sessions) skiluðu aukinni hamingju og minnkandi neikvæðum tilfinningum. Þátttakendur rannsóknarinnar voru staðsettir á þremur stöðum, á spítala, geðdeild og umönnunarheimili (Thomson & Chatterjee, 2016).
Safnmunir virðast geta virkað sem einskonar „akkeri fyrir samræður“, meðhöndlun þeirra leitt til sköpunar, endurminninga eða tengsla innan hóps (Morse, 2021; bls. 148). Í rannsókn sinni tengdri umönnun (e. care) á söfnum innan Tyne & Wear Archives and Museum komst Morse að því að með því að skapa öruggt rými umönnunar fyrir þátttakendur gætu safnmunir og skapandi verkfæri hjálpað fólki að vinna með sjálfsmynd sína eftir persónulega erfiðleika, til dæmis í kjölfar hjartaáfalls (Morse, 2021).

Snertiskyn

Húðin er helsta tenging einstaklingsins við sitt ytra umhverfi (Critchley, 2020) og þess vegna kjörið að skoða snertiskyn gesta innan safnsins ef huga á að því hvernig megi betur stuðla að vellíðan og tengingu einstaklinga við safnið. Francis McGlone (2020) hefur bent á hvernig snerting á safnhlutum getur hjálpað gestum að nálgast efnislega gripi á máta sem gerir upplifun þeirra ríkulegri og næmari. Þetta er gert með því snerta munina með öðrum hluta húðarinnar en fólk gerir venjulega, að snerta með svokallaðri „loðinni húð“. Loðin húð er allsstaðar á líkamanum nema innan í lófa og undir fótum. Almennt koma taugaendar áleiðis boðum um snertingu, hitastig, kláða og sársauka (McGlone, 2020 vísar í Willis 1985 og Darian-Smith 1984), en nýlega hafa fundist sannanir fyrir því að á fyrrnefndu svæði húðarinnar séu taugaendar sem virkjast við hægar, blíðar hreyfingar og geta komið af stað jákvæðum tilfinningalegum viðbrögðum. Með þessa vitneskju í farteskinu bendir McGlone á að hægt sé að nota handabakið eða jafnvel andlitið til þess að skynja hluti á nýjan hátt og samtímis auka upplifunina við það að meðhöndla muni (McGlone, 2020).

Chatterjee, H., Vreeland, S. og Noble, G. (2009). Museopathy: Exploring the Healing Potential of Handling Museum Objects. Museum and Society, 7(3), 164–177.

Critchley, H. (2020). Emotional Touch: A Neuroscientific Overview. Í R. F. Peters, I. L. F. den Boer, J. S. Johnson, & S. Pancaldo (Ritstj.), Heritage Conservation and Social Engagement. UCL Press. https://www.jstor.org/stable/j.ctv13xps1g.17

Dodd, J. og Jones, C. (2014). Mind, body, spirit. How museums impact health and wellbeing. Research Centre for Museums and Galleries. ISBN 978-1-898489-49-8

McGlone, F. (2020). The Two sides of touch: Sensing and Feeling. Í H. J. Chatterjee (Ritstj.), Touch in Museums: Policy and Practice in Object Handling. Routledge.

Morse, N. (2021). The museum as a space for social care. Routledge.

Thomson, L. J. M. og Chatterjee, H. J. (2016). Well-Being With Objects: Evaluating a Museum Object-Handling Intervention for Older Adults in Health Care Settings. Journal of Applied Gerontology, 35(3), 349–362. https://doi.org/10.1177/0733464814558267